Innlent

Niðurgreiða þurfi laun farmanna til að halda stéttinni

Eina leiðin til að halda farmannastétt hér á landi er að niðurgreiða laun farmanna eins og gert er í nágrannalöndunum, segir Helgi Laxadal, formaður Vélstjórafélags Íslands.

Helgi Laxdal var gestur í hádegisviðtalinu á NFS í dag þar sem hann ræddi meðal annars um þá stöðu sem upp er komin eftir að vélstjórar á fiskiskipum felldu kjarasamning við LÍÚ í annað sinn en hann segir verkfall yfirvofandi af þeim sökum.

Helgi ræddi þá fækkun sem orðið hefur í íslenskri farmannastétt á undanförnum árum eftir að útgerðir hafa skráð skip sín í útlöndum. Hann benti á að nágrannaríkin hefðu brugðist við á þann hátt að niðurgreiða laun sinna farmanna til að gera þá samkeppnishæfa við ódýrt vinnuafl. Það væri gert á þann hátt að útgerðir greiddu ekki skatt af hluta launanna.

Þetta hefði gerst nú síðast í Færeyjum þar sem sum íslensk fyrirtæki hafa skráð skip sín og áhafnir. Færeyingar taki nú um sjö prósent í kostnað af öllum launum íslenskra farmanna sem séu á skipunum. Þetta telji hann að séu um 100-200 milljónir króna. Íslenska ríkið verði af þessum skattpeningum en Færeyingar hafi af þessu ávinning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×