Innlent

Landsmenn virðast ekki vilja fleiri álver

Meirihluti landsmanna vill ekki að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að ný álver rísi hér á landi á næstu árum að því er fram kemur í könnun sem Gallup gerði fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Þegar spurt var hvort stjórnvöld ættu að beita sér fyrir byggingu nýrra álvera á næstu 5 árum svöruðu 50,3% aðspurðra að ríkisstjórnin ætti ekki að beita sér fyrir frekari uppbyggingu álvera á næstunni. Aðeins 29,6% töldu það vera hlutverk ríkisstjórnarinnar en 20,1 % voru hinsvegar á báðum áttum. Þegar spurt var um afstöðu fólks til virkjanaframkvæmda vegna álvera á næstu 5 árum sögðust 51,8% aðspurðra vera andvíg þeim, 35,5% voru fylgjandi en 12,8% stóð á sama.

Greinilegt er að fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna eru frekar hallir undir byggingu fleiri álvera en stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar. Samkvæmt könnuninni eru 65% framsóknarmanna og 58% sjálfstæðismanna fylgjandi frekari uppbyggingu álvera en aðeins 29% Samfylkingarfólks og 11% af fylgjendum Vinstri grænna. Úrtakið í könnuninni var 1350 manns en þar af svöruðu slétt 800.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×