Innlent

Danól og Ölgerðin verða auglýst til sölu

Eigendur Daníels Ólafssonar ehf., sem rekur heildsölufyrirtækið Danól, hafa ákveðið að selja fyrirtækið og allar eignir þess, þar með talda Ölgerðina Egill Skallagrímsson ehf. Verða félögin seld saman eða hvort í sínu lagi ef ásættanlegt kauptilboð berst. Sölumeðferðin er í höndum MP Fjárfestingarbanka hf. og er áætlað að hún taki um sex vikur.

Í fréttatilkynningu segir að rekstur Danól og Ölgerðarinnar hafi gengið mjög vel undanfarin ár og að árið 2005 hafi verið besta ár í rekstri beggja fyrirtækja frá upphafi. Velta Danól hafi vaxið síðustu ár og var 2,3 milljarðar 2005.

Einar Friðrik Kristinsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Danól í 42 ár, hættir störfum á þessum tímamótum. Í yfirlýsingu frá honum segist hann hafa verið lengi í þessum rekstri og kominn tími til að draga sig í hlé. Nú séu góðar aðstæður til að selja og margir hafi sýnt fyrirtækjunum áhuga.

Danól er eitt stærsta innflutnings- og dreifingarfyrirtæki landsins. Meðal heimsþekktra vörumerkja Danól eru Merrild, Nestlé, Nescafé, Duni, Neutral, Oroblu, Quality Street, KitKat og After Eight. Hjá fyrirtækinu starfa um 60 manns. Ölgerðin er eitt þekktasta og stærsta iðnfyrirtæki landsins með nær 600 vörunúmer, 130 starfsmenn og starfsstöðvar í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og í Borgarnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×