Innlent

Metaðsókn á Fullkomið brúðkaup á Akureyri

Gamanleikritið Fullkomið brúðkaup sló 23 ára gamalt aðsóknarmet Leikfélags Akureyrar um helgina. Ekki verða þó fleiri sýningar á leikritinu í Samkomuhúsinu en sýningin flyst suður innan skamms.

11.750 manns sáu Fullkomið brúðkaup á Akureyri en til samanburðar má nefna að engin sýning í Reykjavík í vetur hefur laðað að yfir 10 þúsund áhorfendur. Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA, skýrir velgengnina á þann hátt að Fullkomið brúðkaup sé ákaflega vel skrifað leikrit þar sem rómantík og farsi vegist á. Aðalástæðuna fyrir góðu gengi telji hann þó þær kostulegu persónur sem leikurunum hafi tekist að skapa.

Fullkomið brúðkaup er eftir Robin Hawdon en Örn Árnason þýddi verkið. Sýningum á Akureyri hefur nú verið hætt til að undirbúa Litlu Hryllingsbúðina. Hins vegar hefur verið ákveðið að fara með brúðkaupið til Reykjavíkur og hefst miðasala þar 4. mars en sýningar í lok apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×