Innlent

Ráðherra segir óþolandi að samningurinn um flugið sé ekki haldinn

þegar skrifað var undir samninginn um flugið að ekkert flugskýli væri til staðar fyrir vélina.
þegar skrifað var undir samninginn um flugið að ekkert flugskýli væri til staðar fyrir vélina. MYND/GVA

Heilbrigðisráðherra segir það óþolandi að samningur um sjúkraflug frá Vestmannaeyjum sé ekki haldinn. Þrjú tilvik komu upp í síðustu viku þar sem sjúkraflugvél var ekki til staðar í Eyjum þegar á þurfti að halda.

Í síðustu viku var sagt frá tveimur tilvikum þar sem þörf var á sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum en engin vél var til staðar. Í fyrra skiptið var um ræða fárveikt tveggja ára gamalt barn en í síðara tilvikinu þurfti að flytja karlmann með beinbrot til Reykjavíkur. Síðastliðinn föstudag var svo kallað eftir vélinni í þriðja skiptið á þremur dögum, án þess að hún væri til staðar. Ekki var unnt að fá upplýsingar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja í morgun um ástand hins slasaða eða veika sem þá átti í hlut. Sjúkravélin kom hins vegar aftur til Eyja seinna á föstudeginum.

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra segir að ekki verði sýnd nein linkind við að fá samningnum um sjúkraflugið, sem gerður var nýverið við Landsflug, framgengt. Það að vélin skuli ekki hafa verið til taks í Eyjum í tilvikunum þremur sé skýlaust brot á samningnum og ráðuneytið muni ganga hart fram í þessum málum.

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum fengu þá skýringu frá forsvarsmönnum Landsflugs í dag að meginástæðan fyrir því að vélin hafi ekki verið til staðar í umræddum tilvikum sé sú að það vanti flugskýli í Eyjum fyrir vélina sem notuð er í sjúkraflugið, því Dornier-vélar af þeirri tegund sem umrædd flugvél er þurfi ávallt að geyma innandyra. Heilbrigðisráðherra gefur lítið fyrir þessar skýringar og segir að það hafi legið fyrir þegar skrifað var undir samninginn um flugið að ekkert flugskýli væri til staðar fyrir vélina. Ef forsvarsmenn Landsflugs hafi skrifað undir hann, vitandi vits að þeir ætluðu að fara á svig við samninginn, sé það alvarlegt mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×