Innlent

Sign fer í víking

Hljómsveitin Sign er á förum til Bretlands þar sem hún mun koma fram á sínum fyrstu tónleikum utan Íslands þann 28. febrúar. Tónleikarnir fara fram á Barfly í Camden Town í London en þegar hefur töluverður fjöldi blaðamanna og útsendara plötufyrirtækja boðað komu sína á tónleikana. Sign hefur undanfarið setið við lagasmíðar og mun flytja tvö ný lög á tónleikunum.

Sign heldur síðan til Bandaríkjana í mars þar sem þeir koma fram á tvennum tónleikum í New York. Þá mun sveitin taka þátt í SXSW tónlistar- og kvikmyndahátíðinni í Austin, Texas og halda tvenna tónleika í Los Angeles meðal annars á hinni sögufrægu rokkbúllu Viper Room.

Nýverið sendi hljómsveitin frá sér nýtt myndband við lagið A Little Bit í tengslum við alþjóðlega útgáfu af laginu sem fer í stafræna dreifingu á næstunni í verslunum iTunes, Napster, e-music, Yahoo og Karma Download.

Áður en sveitin heldur utan heldur hún tvenna tónleika á Gauk á Stöng föstudaginn 24. febrúar. Fyrri tónleikarnir verða kl. 17.00 fyrir alla aldurshópa en þeir seinni frá miðnætti fyrir 18 ára og eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×