Innlent

Langstærsti þjóðgarður Evrópu í burðarliðnum

Allt stefnir í að langstærsti þjóðgarður í Evrópu verði að veruleika á Íslandi á næstu árum. Umhverfisráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp um svokallaðan Vatnajökulsþjóðgarð næsta haust. Hann myndi ná allt frá Skaftafelli í suðri til Ásbirgis í norðri.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra var gestur Sigmundar Ernis Rúnarssonar í þættinum Skaftahlíð á NFS í gær. Þar sagðist hún telja að almenn sátt gæti náðst um að allt vatnasvæðið í kringum Jökulsá á Fjöllum yrði algjörlega látið í friði í framtíðinni.

Sigríður Anna segir vinnu við frumvarpið um Vatnajökulsþjóðgarð komna í fullan gang og hún vonast til að geta lagt frumvarpið fram á þingi í haust. Þó að enn hafi ekki verið ákveðið hvar mörk þjóðgarðsins liggja, enda margir lausir endar, er ljóst að svæðið mun ná yfir meira en einn tíunda hluta landsins. Hugmyndin er að þjóðgarðurinn nái þvert í gegnum allt landið og inni í honum yrði Skaftafell á Suðurlandi, allur Vatnajökull, Askja , Herðubreið og Herðubreiðalindir og síðast en ekki síst Ásbyrgi fyrir norðan.

Það sýni sérstöðu Íslands, að geta ráðist í verkefni af þessari stærðargráðu, á sama tíma og í öðrum löndum Evrópu sé varla hnefastór blettur sem ekki hafi verið átt við af mönnum. Þetta sé sérstaða sem Íslendingar séu almennt sammála um að verði að halda í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×