Innlent

Eyþór Arnalds efstur

Eyþór Arnalds er efstur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg, miðað við fyrstu tölur, en samkvæmt þeim er núverandi oddvita flokksins hafnað. Á sjöunda hundrað manna hafa greitt atkvæði í prófkjöri Framsóknarflokksins á Akureyri.

 

811 greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg, auk þess sem kosið var á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar 200 atkvæði höfðu verið talin var Eyþór Arnalds efstur, Þórunn Jóna Hauksdóttir í öðru sæti og Snorri Finnlaugsson í því þriðja. Í fjórða sæti er svo Elfa Dögg Þórðardóttir og Grímur Arnarson í fimmta sæti. Annar tveggja núverandi bæjarfulltrúa flokksins Páll Leó Jónsson virðist samkvæmt fyrstu tölum hafa verið hafnað.

Framsóknarmenn á Akureyri velja í dag líka sína fulltrúa fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Kosið var í Hrísey í dag, þar sem einn greiddi atkvæði, auk þess sem sveitungi hans greiddi atkvæði á Akureyri. Kjörstaður á Akureyrir er opinn til klukkan 20. Ljóst er Framsóknarmenn velja sér nýjan oddvita, því Jakob Björnsson fyrrverandi bæjarstjóri gefur ekki kost á sér áfram. Gerður Jónsdóttir og Jóhannes Bjarnason gefa kost á sér í efsta sæti listans.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×