Innlent

Landsflug krafið skýringa

Dornier vél Landsflugs.
Dornier vél Landsflugs. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Heilbrigðisráðuneyti og bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar hafa krafið Landsflug um skýringar á því hvers vegna sjúkraflugvél hafi ekki verið til staðar tvívegis á tveimur dögum þegar hennar var þörf. Framkvæmdastjóri Landsflugs segir félagið hafa staðið við skuldbindingar sínar og auk þess hafi ekki verið um bráðaútköll að ræða í umræddum tilvikum.

Á þriðjudag leið rúm klukkustund frá því sjúkraflug var pantað fyrir fárveikt tveggja ára gamalt barn í Vestmannaeyjum þar til flugvél lenti í Eyjum. Það var svo í gærmorgun sem vél var heldur ekki til staðar þegar útkall varð. Maður hafði beinbrotnað og gisti hinn slasaði á Heilbrigðisstofnuninni í Vestmannaeyjum yfir nótt, og þá var kallað eftir vél en engin slík var til staðar.

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Vestmanneyjabæjar, segir ljóst að Eyjamenn sætti sig ekki við slíkt ástand. Skilyrt sé í samning um sjúkraflug að vél eigi alltaf að vera til taks í Eyjum. Bergur Elí a s segir Vestmannaeyjabæ og Heilbrigðisráðuneyti óska eftir skýringum frá Landsflugi.

Rúnar Fossádal Árnason, framkvæmdastjóri Landsflugs, segir að þeim fyrirspurnum verði svarað eftir helgi. Hann segir félagið hafa staðið við sínar skuldbindingar hvað varðar sjúkraflug til Eyja síðan það tók við því eftir áramót. Vél félagsins hafi verið í viðgerð í Reykjavík í þrjár nætur en komið aftur til Eyja í dag. Á meðan hafi verið sjúkravakt í Reykjavík. Ekki hafi verið hægt að senda aðra, stærri vél félagsins til Eyja þessa dag þar sem ekki sé hægt að hýsa þar sem stendur. Sótt hafi verið um lóð í Vestmannaeyjum fyrir flugskýli. Sú umsókn hafi ekki verið afgreidd enn.

Bergur Elías segir þá umsókn verða tekna fyrir eins hratt og vel og hægt verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×