Innlent

Línuhönnun fyrsta ráðgjafafyrirtækið sem fær umhverfisvottun

Fyrsta umhverfisvottun sem íslenskt ráðgjafafyrirtæki fær var afhent í dag og var það Línuhönnun sem hana hlaut. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að með vottuninni sé ákveðnu markmiði náð.

Verkfræðistofan Línuhönnun var stofnuð árið 1979 en snemma á níunda áratugnum fór fyrirtækið einnig að bjóða upp á viðhaldsráðgjöf. Mörg þekkt hús hafa verið á meðal viðfangsefna Línuhönnunnar, m.a. aðalbygging Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið og Bessastaðir. Umhverfisvottunin sem fyrirtækið fékk í dag er samkvæmt svokölluðum ISO 14.001 staðli en fyrirtæki með slíka vottun hefur farið í gegnum ákveðið ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á hvaða umhverfisáhrif starfsemi fyrirtækisins hefur.

Að sögn Guðmundar Þorbjörnssonar, framkvæmdastjóra Línuhönnunar, hafa aðeins sex fyrirtæki hér á landi fengið þessa viðurkenningu áður, og Línuhönnun er fyrsta ráðgjafafyrirtækið sem hlýtur hana. Guðmundur segir þessa umhverfisvottun hafa mikla þýðingu fyrir fyrirtækið og vinnu þess.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×