Innlent

Mega ekki veiða of mikið

Loðnuveiðar ganga vel við Vestmannaeyjar. Helsta vandamál sjómanna er að veiða ekki meira en svo að vinnslan hafi undan því, vegna þess hversu lítill kvótinn er á sem minnst að fara í bræðslu.

Það tekur ekki langan tíma þessa dagana að veiða loðnuna og flytja að landi. Skipin halda úr höfn síðla nætur eða snemma morguns og eru oft komin í höfn á hádegi, stundum með það ferskan afla að hann spriklar enn í lestunum þegar er byrjað að landa. Vegna þess hversu litlum kvóta var úthlutað er áhersla lögð á að eins mikill hluti aflans og hægt er fari til manneldis. Því verða sjómenn að halda aftur af sér og gæta þess að veiða ekki meira en svo að vinnslan í landi hafi undan. Á sumum þeirra má heyra að hægt væri að veiða mun meira en gert er en um það eru þó skiptar skoðanir.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum segir það hafa haft mikil áhrif á rekstur fyrirtækisins hversu litlum kvóta var úthlutað.

"Við erum með rúmlega tíu prósent af kvóta landsins og ættum að gera út á þann kvóta fjögur skip en nú erum við einungis með fjögur skip," segir Sigurgeir Brynjar. "Við verðum að bregðast við og draga saman."

Skipin sem hafa verið á loðnuveiðum við Vestmannaeyjar hafa verið fljót að veiða þann afla sem þeim er óhætt að koma með í land hverju sinni. Því hlýtur að vakna spurningin hvort ekki sé óhætt að auka aflann.

"Ég ver varla dómbær á það sjálfur," segir Sigurgeir Brynjar. "Ég tek hins vegar heilmikið mark á fiskifræðingum og finnst þeir í gegnum tíðina jafnan hafa hitt naglann á höfuðið. Þeirra mat er að það sé ekki mikið af loðnu í sjónum núna. Ég er talsmaður þess að fara varlega og láta náttúruna njóta vafans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×