Innlent

Aðstandendur harma myndbirtingar DV

Aðstandendur Jóns Þórs Ólafssonar, sem var myrtur í El Salvador sl. helgi, segjast harma „ósmekklegar og tilgangslausar myndbirtingar" DV í morgun þar sem fjallað var um atburðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum síðdegis. Þar segir að í andlátsfregn og fréttayfirlýsingu sem send var út á mánudag hafi fjölmiðlar verið lengstra orða beðnir um að sýna nærgætni í umfjöllun sinni. „Fóru aðrir fjölmiðlar landsins að þeim tilmælum og skal það þakkað sérstaklega," segir í tilkynningunni.  

Svo segir: „Ættingjar Jóns Þórs fengu fregnir af fyrirhugaðri myndbirtingu í gærkvöldi og fóru þeir á ritstjórnarskrifstofu DV í þeim tilgangi að reyna að fá ritstjóra til að falla frá birtingu myndanna. Var allt gert til þess að fá nýja ritstjóra hins „breytta blaðs“ til þess að láta af myndbirtingu þessari og getgátum í fréttaflutningi. Ættingjar ræddu við fréttastjóra og ritstjóra í tvo tíma en allt kom fyrir ekki.

Jón Þór lætur eftir sig tvö börn, 6 og 9 ára gömul, sem nú þegar eiga um nógu sárt að binda. Hinu ógeðfellda blaði sem nærist á hörmungum og sorg annarra er að sjálfsögðu haldið frá börnunum en þau vaxa úr grasi og eins er óvíst með öllu að vinir, jafnaldrar og skólafélagar kunni að fara með svo viðkvæmar upplýsingar og myndbirtingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×