Innlent

Landsbanka ber að afhenda skjöl

Hæstiréttur hefur úrskurðað að Landsbanka Íslands sé skylt að afhenda efnahagsbrotadeild lögreglunnar afrit af skjölum varðandi færslur á bankareikningum tveggja manna. Þar með staðfestir Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 26. janúar síðastliðinn.

Málið tengist rannsókn á áætluðum refsiverðum viðskiptum með stofnbréf Sparisjóðs Hafnafjarðar. Ríkissaksóknari krafði á sínum tíma Héraðsdóm Reykjavíkur um að úrskurðað yrði að honum væri heimilt að fá upplýsingar og gögn hjá Landsbanka Íslands vegna málsins þar sem kærðu í máli Sparisjóðsins gáfu upp mismunandi skýringar á færslum á reikningum í þeirra eigu, neituðu að svara eða kváðust ekki hafa selt stofnfjárhluti sína. Héraðsdómur féllst á kröfu ríkissaksóknara en Landsbankinn skaut málinu til Hæstaréttar á þeim grundvelli að beiðni ríkissaksóknara sé ekki nógu skýr og að ekki væri ljóst hvernig umræddar upplýsingar tengist yfirstandandi rannsókn. Þessu hafnaði Hæstiréttur og úrskurðaði eins fyrr greinir að dómur Héraðsdóms skyldi standa. Auk upplýsinga um færslu á bankareikningum mannanna tveggja ber Landsbankanum að afhenda ljósrit af tékka, hafi bankinn það undir höndum, að upphæð rúmlega fimmtíu milljóna króna og hafi tékkinn verið seldur þá upplýsingar um hvert og í þágu hvers söluandvirði tékkans var ráðstafað. Einn dómari skilaði inn séráliti og vildi að dómur hérðasdóms yrði felldur úr gildi. Segir í séráliti dómarans að þar sem að beiðni lögreglunnar sneri að því að gefnar yrðu upp upplýsingar um færslur á reikningum manna þrátt fyrir þagnarskyldu starsmanna Landsbankans en lagaákvæði um þagnarskyldu miðuðu að því að vernda hagsmuni eigenda bankareikninga. Því verði ekki séð að neinir hagsmunir sem tengjast rannsókninni mæli gegn því að mennirnir fái sjálfir að gæta réttar síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×