Innlent

Alheimssamtök lyðheilsustöðva stofnuð

Alheimssamtök opinberra lýðheilsustöðva, International Association of National Public Health Institutes (IANPHI) hafa verið stofnuð og fór stofnfundurinn fram í Ríó de Janeiro í Brasilíu, dagana 29. janúar til 1. febrúar sl. með þátttöku forstjóra flestra opinberra lýðheilsustöðva sem nú eru starfandi í löndum víðs vegar um heiminn. Þeirra á meðal var Anna Elísabet Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar Íslands.

Af því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Lýðheilsustofnun ætla samtökin fyrst og fremst að leggja áherslu á bæta heilsu þjóða og draga úr sjúkdómum með því að efla lýðheilsustarf með bættri þjónustu, rannsóknum og starfsþjálfun. Markmið alheimssamtakanna er að styrkja starfsemi lýðheilsustöðva. Samtökin aðstoða einnig lönd við stofnun opinberra lýðheilsustöðva eða styrkja eftir þörfum þær sem þegar eru starfandi. Þannig vonast samtökin til að þeirra framlag verði til þess að efla lýðheilsustarf í heiminum og leita í því sambandi eftir samstarfi við aðra lykilaðila, s.s. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, Alþjóðabankann og aðrar stofnanir.

Á stofnfundinum, sem brasilíska lýðheilsustöðin Fiocruz hélt, voru samþykkt lög alheimssamtakanna og kosið í stjórn þeirra. Jafnframt var gengið frá ráðningu aðalritara samtakanna og gerð drög að starfsáætlun næsta árs. Formaður stjórnar er dr. Jeffrey Koplan, fyrrum forstjóri CDC í Bandaríkjunum, varaformaður er dr. Pekka Puska, forstjóri finnsku lýðheilsustöðvarinnar, KTL, en hann bauð að finnska lýðheilsustöðin myndi hýsa skrifstofu samtakanna. Auk þeirra skipa stjórnina forstjóri lýðheilsustöðvar Brasilíu, Kína, Tékklands, Marokkó, Nígeríu og Tælands. Dr. Pekka Jousilahti verður aðalritari samtakanna og stýrir aðalskrifstofunni í Finnlandi.

Á fundinum í Brasilíu var sérstaklega rætt um möguleg hlutverk lýðheilsustöðva í tengslum við þrjú stór verkefni: að fuglaflensan verði að alheimsfaraldri, viðbúnað vegna náttúruhamfara og forvarnir gegn langvinnum sjúkdómum. Farið var yfir og rætt um það starf sem unnið er á vegum Fiocruz, lýðheilsustöðvar Brasilíu.

Til að alheimssamtökin geti starfað af krafti hafa þau hlotið fjárstuðning frá Stofnun Bill og Melindu Gates. Forstjóri alþjóðaheilbrigðismáladeildar Gates sjóðsins, dr. David Fleming, lagði áherslu á að með þessari samvinnu hefðu alheimssamtökin möguleika á að hafa áhrif á alþjóðastefnu í heilbrigðismálum til styrkrar lýðheilsustarfi, ekki síst í löndum þar sem fátækt ríkti. Í mörgum löndum er það afar erfitt viðfangsefni að stofnsetja og reka lýðheilsustofnun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×