Innlent

Björn Ingi gefur lítið fyrir ásakanir Kristins H.

MYND/Anton

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra og varaþingmaður, leiðir lista framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum í vor en hann vann nokkuð öruggan sigur í prófkjöri flokksins í borginni í gær. Hann segist bjartsýnn á að fylgi flokksins muni aukast fyrir kosningarnar.

Björn Ingi fékk 1794 atkvæði í fyrsta sæti en Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi varð önnur með 1308 atkvæði í fyrsta til annað sæti. Þá varð Óskar Bergsson í þriðja sæti í prófkjörinu með 1488 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti en þessi þrjú sóttust eftir að leiða lista framsóknarmanna. Í fjórða til sjötta sæti koma svo þrjár konur, þær Marsibil Sæmundardóttir, Ásrún Kristjánsdóttir og Elsa Ófeigsdóttir. Alls greiddu 3.908 atkvæði í prófkjörinu, þar af um þúsund utan kjörfundar.

Björn Ingi var sigurreifur þegar NFS náði tali af honum í morgun. Hann sagði þetta afgerandi sigur og þakkaði hann stuðningsmönnum og íbúum borgarinnar fyrir stuðninginn. Björn segist hafa lagt upp með að vera jákvæður og málefnalegur í kosningabaráttunni sem hann telur að hafi tekist. Aðspurður hvort þessi nokkuð afgerandi niðurstaða hafi komið sér á óvart svarar hann „já og nei".

Ekki náðist í Önnu Kristinsdóttur í morgun og voru þau skilaboð á talhólfi hennar að hún yrði erlendis næstu daga. Óskar Bergsson sagðist í samtali fréttastofu í morgun ekki hafa tekið ákvörðun um það hvort hann taki þriðja sætið.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum NFS í gær að hópur háttsettra einstaklinga og forystufólks innan Framsóknarflokksins, tengd Birni Inga, muni reyna að hafa áhrif til að koma Kristni, og jafnvel fleiri þingmönnum flokksins, af framboðslista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar á næsta ári. Björn Ingi gefur lítið fyrir þessar ásakanir og segir að Kristinn verði að finna þeim stað. Framsóknarmenn séu ekki að hugsa núna um prófkjör eða uppstillingar fyrir þingkosningarnar. „Ég veit ekki hvað þessi maður er að tala um," segir Björn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×