Erlent

Ríkisstjórnin í Kanada fallin

Þrettán ára stjórn Frjálslynda flokksins í Kanada er lokið en Íhaldsflokkurinn fór með sigur af hólmi í þingkosningum þar í landi í gær.

Stephen Harper, leiðtogi Íhaldsflokksins verður forsætisráðherra og tekur við af Paul Martin, leiðtoga Frjálslynda flokksins. Hefur Harper heitið því að bæta samskiptin við Bandaríkin og lækka skatta. Stjórnmálaskýrendur segja Kanadamenn búast við harðri hægristefnu af ríkisstjórn undir hans stjórn en hingað til hefur stjórnarstefna landsins einkennst af frjálslyndri vinstristjórn. Íhaldsflokkurinn er með 125 sæti á þingi, Frjálslyndir 102, þjóðernissinnar í Quebec með 51 og Nýi lýðræðisflokkurinn með 29 sæti. Íhaldsmenn hlutu 37% atkvæða og Frjálslyndir 30%. Íhaldsmenn fengu því ekki hreinan meirihluta eins og margir bjuggust við en til þess þarf flokkur að fá að minnsta kosti 40 prósent atkvæða. Varaformaður Íhaldsflokksins sagði þetta sýna að Kanadamenn vildu breytingar í landinu, sterkara samband við Bandaríkjamenn og harðari hægristefnu í ýmsum málum. Búist er við því að Harper myndi minnihlutastjórn en fréttaskýrendur spá henni ekki langlífi, spá þeir að hún endist í mesta lagi hálft annað ár.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×