Erlent

Vara við að láta öryggisráðið úrskurða

Það gæti gert illt verra að vísa deilunni vegna kjarnorkuáætlunar Írana til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sagði sendiherra Kína hjá Sameinuðu þjóðunum rétt í þessu. Hann sagðist óttast að slík aðgerð gerði deiluna flóknari og herti deilandi fylkingar í afstöðu sinni.

Fyrr í dag hótuðu Íranar að hætta öllu samstarfi við Alþjóða kjarnorkumálastofnunina ef deilunni yrði vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þeir segjast reiðubúnir til viðræðna við Breta, Frakka og Þjóðverja sem hafa farið fyrir viðleitni Evrópuþjóða til að leysa deiluna en neita að gera slíkt ef málið fer fyrir öryggisráðið. Utanríkisráðherrar ríkjanna þriggja funduðu í gær og sögðust þá reiðubúnir að vísa málinu til öryggisráðsins enda væri sannað og skjalfest að Íranar hefðu beitt blekkingum um kjarnorkuáætlun sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×