Innlent

Börnin sýna í Mjóddinni

Samsýning 180 ungra listamanna var opnuð í göngugötunni í Mjódd í morgun. Listamennirnir ungu eru leikskólabörn af Fálkaborg, Arnarborg og Bakkaborg í Breiðholtinu. Listaverkin eru brot af því besta sem börnin hafa gert í vetur.

Efniviðurinn er margbreytilegur, þarna má sjá íspinnaspýtur og endurnýtta eplabakka, auk þess sem afurðir náttúrunnar verða börnunum að yrkisefni: sandur, jurtir og blóm. Börnin voru spennt að sjá myndirnar sínar uppi á vegg og leiðsögðu fullorðna fólkinu stolt um sýninguna.

Börn á öllum aldri eiga verk á sýningunni, allt frá yngsta árganginum upp í sex ára börn sem fara í skóla í haust. Sýningin stendur uppi í Mjóddinni fram til 22.maí, fyrir þá sem vilja kynna sér afrakstur frjós starfs hjá leikskólunum.

Ronja ræningjadóttir tók lagið við opnun sýningarinnar en börnin voru eitthvað feimin við að taka undir, þó mörg þeirra kölluðu til Ronju að þau hefðu séð hana á sviði eða í sjónvarpinu. Börnin sungu hins vegar saman lög sem þau voru búin að æfa og tókst vel upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×