Útgöngubann er nú í gildi allan sólarhringinn í Bagdad, höfuðborg Íraks. Óttast er að borgarastyrjöld sé að brjótast út í landinu en á annað hundrað manns hafa fallið í skærum sjía- og súnní-múslima undanfarna daga.
Götur Bagdad-borgar voru nánast auðar og yfirgefnar í morgun. Her- og lögreglumenn voru einir á ferð þar sem þeir voru að framfylgja útgöngubanni þar. Útgöngubann er einnig í gildi í þremur héruðum annars staðar í landinu.
Alda blóðugra átaka hefur skolið á landinu síaðn ein allra heilagasta moska sjía í Samarra-borg var eyðilögð í fyrradag. Um það bil 120 manns hafa fallið í átökunum síðan þá. Öryggissveitir hafa hert gæslu við tvær helstu moskur súnní-múslima í Bagdad en skemmdir hafa verið unnar á moskum þeirra víðsvegar um landið.
Stærsta stjórnmálahreyfing súnní-araba afboðaði í gær þátttöku í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar vegna óaldarinnar. Á meðal þeirra sem drepnir hafa verið í átökunum eru þrír fréttamenn Al-Arabía sjónvarpsstöðvarinnar sem margir Írakar telja hliðholla Bandaríkjamönnum í fréttaflutningi sínum.
Sérfræðingar segja landið ramba á barmi borgarastyrjalda og nú reyni á erlent herlið í Írak sem aldrei fyrr síðan ráðist var inn í landið árið 2003.