Innlent

Mótmæla vinnubrögðum ríkisins

Blindrafélagið mótmælir vinnubrögðum ríkisins við undirbúning frumvarps um sameiningu Sjónstöðvar Íslands og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Félagsmenn eru afar óhressir með að ekki var haft samráð við hagsmunafélög sem málið varðar. Í kvöld hélt Blindrafélagið félagsfund sem var sá fjölsóttasti í áraraðir. Umræðuefnið var frumvarp ríkisstjórnarinnar um sameiningu Sjónstöðvar Íslands og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og sat heilbrigðisráðherra fundinnn.

Á fundinum kom fram mikil óánægja félagsmanna með vinnubrögð ríkisins við gerð frumvarpsins en lítið sem ekkert samráð var haft við félagið við gerð þess og ekki tekið tillit til óska félagsmanna að þeirra mati. Fundurinn sendi frá sér ályktun þar sem Blindrafélagið mótmælir vinnubrögðum ríkisins og að hafa þrátt fyrir vilyrði um hið gagnstæða nær ekkert tekið tillit til athugasemda stjórnar félagsins. Þá skorar félagsfundurinn á heilbrigðis og tryggingamálanefnd á að afgreið ekki frumvarpið úr nefndinni í andstöðu við notendur.

En af hverju á að sameina þessar tvær stöðvar? að sögn Sivjar Friðleifsdóttur er ástæðan sú að með sameiningu náist fram hagræðing sem og að núverandi húsnæði sjónstöðvarinnar er sprungið og því þarf að finna stöðinni nýtt húsnæði.

Ágústa Gunnarsdóttir, stjórnarmaður Blindrafélagsins segir að með því að færa Sjónstöðina skerðist þjónusta við blinda. Hún segir að ekki komi til greina af hálfu fálgsins að sameina þessar tvær stöðvar enda ekkert líkt með blindum og heyrnarskertum. Þá segir hún að ekki hafi verið tekið tillit til óska blindra og það sé óviðunandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×