Innlent

Ýtir undir fordóma gegn holdafari

MYND/Getty

Edda Ýrr Einarsdóttir, formaður Formu, samtaka átröskunarsjúklinga á Íslandi, segir það ekki endilega jákvætt að stúlku hafi verið vísað úr fyrirsætukeppni á grundvelli þess að hún hafi verið of grönn. Hún segir það kynda undir fordómum gegn holdafari sem sem fari æ vaxandi á Íslandi.

DV sagði frá því í morgun að þátttakanda hafi verið vísað úr keppninni um bikinímódel Íslands 2006 af því stúlkan þótti of horuð. Edda Ýrr bendir á að fólk eigi að varast að vera of fljótt á sér að álykta sem svo að stúlkan hljóti að vera haldin átröskunarvandamáli, vel megi vera að þetta sé hennar náttúrulega holdafar.

Hins vegar telur hún þetta rétta ákvörðun ef stúlkan þjáist af átröskun, þá sé það henni skaðlegt að halda þátttöku áfram. Hún tók sjálf þátt í fegurðarsamkeppni meðan hún þjáðist af átröskun og segir það ekki fara vel saman.

Hún segir ekki hægt að kenna fegurðarsamkeppnum og fyrirsætudýrkun einhliða um átröskunarvandamál, sjúkdómurinn sé alltaf flóknari en svo. Þetta sé sálrænn sjúkdómur sem herji æ harðar á íslenskt samfélag og að helst sé um að kenna þrýstingi frá samfélaginu, vegna staðalímynda sem samfélagið hafi lagt blessun sína yfir.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×