Innlent

Eyþór Arnalds vann yfirburðarsigur í Árborg

Eyþór Arnalds fyrrverandi varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, vann yfirburðarsigur í prófkjöri flokksins í Árborg. Sitjandi leiðtoga var afdráttarlaust hafnað. Jóhannes Gunnar Bjarnason er nýr leiðtogi Framsóknarflokks á Akureyri.

 

Um 1100 manns tóku þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg, sem er um 200 fleiri en kusu flokkinn árið 2002. Eyþór Arnalds gaf kost á sér í fyrsta sæti og tryggði sér það með yfirburðum og Þórunn Jóna Hauksdóttir náði öðru sæti. Snorri Finnlaugsson varð í þriðja. Á eftir þeim komu Elva Dögg Þórðardóttir og Grímur Arnarson. Sjálfstæðismenn hafa í dag tvo bæjarfulltrúa af níu. Annar þeirra er Páll Leó Jónsson og gaf hann kost á sér til áframhaldandi forystu, en kjósendur höfnuðu honum algjörlega því hann hafnaði í 11. sæti. Sigurður Jónsson fyrrverandi bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar vildi einnig leiða listann, en hann lenti í 9. sæti. Eyþór segir listann sigurstranglegan og ótrautt verði stefnt að því að fjölga bæjarfulltrúum flokksins í vor.

Framsóknarmenn á Akureyri völdu í gær líka sína fulltrúa fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, leiðtogi þeirra um árabil, Jakob Björnsson fyrrverandi bæjarstjóri, gaf ekki kost á sér. nýr leiðtogi Framsóknarmanna á Akureyri er Jóhanns Gunnar Bjarnason bæjarfulltrúi og Gerður Jónsdóttir bæjarfulltrúi skipar annað sæti listans. Á eftir þeim koma síðan Erla Þrándardóttir, Erlingur Kristjánsson og Ingimar Eydal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×