Innlent

Rektor HA segist hafa haft nána samvinnu við menntamálaráðherra

Háskólinn á Akureyri
Háskólinn á Akureyri MYND/Ægir Þór

Vegna umræðna um hallarekstur Háskólans á Akureyri segir rektor skólans nauðsynlegt að það komi fram að hann og menntamálaráðherra hafi haft nána samvinnu um úrlausn vandans síðustu misserin. Fjárhagsleg vandamál háskólans séu að mestu tilkomin vegna þess að skólinn hafi stækkað mjög hratt frá árinu 2000.

„Námsframboð hefur aukist verulega og nemendum hefur fjölgað um 123% en fjárveitingar hafa aukist um 113% á sama tíma. Vöxtur í starfsemi Háskólans á Akureyri er með því mesta sem þekkist meðal íslenskra háskóla og ljóst er að yfirvöld menntamála hafa sýnt í verki mikinn metnað við uppbyggingu hans," segir rektor HA, Þorsteinn Gunnarsson.

Stjórnendur háskólans hafa gripið til aðgerða til að hagræða og endurskipuleggja fjölmarga þætti háskólastarfsins, að sögn Þorsteins, með það að leiðarljósi að renna styrkari stoðum undir áframhaldandi uppbyggingu.

„Hafa yfirvöld menntamála komið til móts við þarfir háskólans með viðbótarfjárveitingum. Mikilvægt er að um þessar aðgerðir ríki öll sú sátt sem möguleg er innan háskólans og utan. Viðræður fara nú fram milli fulltrúa menntamálaráðuneytis og stjórnenda háskólans um frekari aðgerðir til að styrkja rekstrarstöðu hans. Þær viðræður ganga vel enda eru báðir aðilar sammála um að hin mikla sókn Háskólans á Akureyri hafi skilað verulegum árangri fyrir íslenskt samfélag og að nauðsynlegt sé að efla starfsemi hans enn frekar," segir rektor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×