Erlent

Fjórir fallnir í átökum vegna skopmyndanna

MYND/AP

Fjórir hafa látist og átján eru slasaðir eftir uppþot meira en þrjú þúsund múslima við búðir norskra friðargæsluliða í Afghanistan í dag.

Lögregla sá þann kost vænstan að hefja skothríð á mótmælendurna, þegar þeir reyndu að vaða inn í búðir norskra friðargæsluliða á vegum NATO í borginni Maymana. Talsmaður öryggissveita segir að ástandið fyrir utan búðir norsku friðargæsluliðanna hafi verið orðið þannig að ekki hafi verið annar kostur í stöðunni fyrir lögreglu en að grípa til vopna. Þrjú þúsund bálreiðir múslimar hafi kastað bensínsprengjum og handsprengjum í átt að búðunum. Friðargæsluliðarnir svöruðu með táragasi og gúmmíkúlum, en það var ekki fyrr en afghanska lögreglan hóf skothríð sem mótmælendurnir lögðu á flótta. Fimm norskir friðargæsluliðar slösuðust í átökunum.

Alger ringulreið ríkir í borginni og fjölmargir breskir hermenn hafa verið sendir þangað til að tryggja öryggi við aðalflugvöllinn, þar sem óttast er að vopnaðir menn láti til skarar skríða gegn starfsmönnum NATO.

Annan daginn í röð hafa mótmælendur látið grjóti og eldsprengjum rigna yfir sendiráðið Dana í Teheran í Íran í dag. Danir krefjast þess að írönsk stjórnvöld verji danska sendiráðið í borginni og starfsfólk þess með öllum tiltækum ráðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×