Erlent

Íranar æfir vegna viðbragða vesturlanda

Íranar eru æfir vegna áætlana um að vísa kjarnorkuáætlun þeirra fyrir Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna. Stjórnvöld í landinu hóta að hætta öllu samstarfi við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Íslendingur sem er yfirmaður þar segir þetta slæm tíðindi, sem þýði að ekki verði hægt að fylgjast með þróun mála í Íran.

Utanríkisráðherrar stærstu ríkja Evrópu funduðu um málefni Írans í gær og niðurstaðan var sú að lengra yrði ekki komist með venjulegum fundarhöldum.

Næsta skref er í höndum alþjóða kjarnorkumála stofnunarinnar, en þolinmæði Bandaríkjanna og Evrópusambandsins virðist á þrotum og beinast virðist liggja við að vísa málinu til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna.

Í bili virðist þó hafa náðst almenn samstaða um að ekki komi til greina að fara með hernaði gegn Íran, þrátt fyrir meinta óhlýðni þeirra í kjarnorkumálum.

En sínum augum lítur hver silfrið og Íranar virðast flestir sammála um að atburðir síðustu daga séu ekkert annað en yfirgangur af hálfu vestrænna ríkja.

"Evrópsk og vestræn ríki eru hrædd við að við komum okkur upp þessari tækni og þess vegna hafa þeir í hótunum við okkur. Þeir eru hræddir við að við þróumst meira," sagði háskólaneminn Leila Jafari.

"Afleiðingarnar af þvía ð vísa málinu til öryggisráðsins hafa þegar komið fram," sagði Pedram, annar háskólanemi. "Það hefur haft áhrif á efnahagslíf landsins, lífsgæðin og öryggi landsins. Það hefur áhrif á líf fólks og að sjálfsögðu vill enginn sjá slík skilyrði í heimalandi sínu."

Magnús Ólafsson einn af framkvæmdastjórum alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar segir að á mánudaginn verði ákveðið hvort boðað verði til neyðarfundar þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×