Erlent

Hóta að slíta öllu samstarfi

Ali Asghar Soltanieh, nýr sendiherra Írans hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni.
Ali Asghar Soltanieh, nýr sendiherra Írans hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni. MYND/AP

Íranar hafa hótað að hætta samstarfi sínu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina, verði þeir kvaddir fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vegna kjarnorkuáætlunar sinnar. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna vill fresta refsiaðgerðum en utanríkisráðherrar Evrópusambandsins segja enga aðra leið í stöðunni.

Íranar hafa samþykkt að ganga að samningaborðinu með Bretum, Frökkum og Þjóðverjum um kjarnorkuáætlun landsins. Utanríkisráðherrar landanna þriggja segja hins vegar viðræður við Írani aldrei hafa skilað neinu og vilja beita refsiaðgerðum. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, útilokar ekki að refsiaðgerðum verið beitt, það verði þó ekki strax enda hafi þær aldrei skilað góðum árangri að hans mati. Ráðherrarnir segja hins vegar bið engu skila og tekur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Condoleeza Rice, í sama streng.

Íranar eru reiðir yfir afstöðu heimsins á að Íranir hefji framleiðslu á úrani að nýju sem þeir segja sinn rétt og vilja almennings í landinu. Hafa Íranir því hótað að hætta samstarfi sínu við Alþjóðlegu kjarnorkustofnunina, verði þeir kvaddir fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vegna málsins. Haft var eftir utanríkisráðherra Írans að þar með myndu Evrópuríki glata þeim möguleikum sem þau nú hafi til að semja. Ráðherrann sagði að verði öryggisráðinu blandað í málið eigi írönsk stjórnvöld ekki annars úrkosti en banna skyndiskoðanir fulltrúa kjarnorkustofnunarinnar á kjarnorkustöðvum í Íran.

Bandaríkjamenn og Bretar hafa sagt að ekki komi til greina að Íranir fái að framleiða úran en þó sagt að vopnavaldi verði ekki beitt til að koma í veg fyrir það. Rússar buðust til að framleiða úran fyrir Írani en það þáðu þeir ekki og tilkynntu Rússar því Bandaríkjamönnum að þeir myndu ekki mótmæla refsiaðgerðum gegn landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×