Erlent

Lögsókn út af krossi

Starfsmaður innritunarborðs Breska flugfélagsins British Airways hefur kært fyrirtækið eftir að það bannaði starfsmönnum að bera kross við einkennisfatnað þess.

Nadia Eweida segir að hún hafi verið þvinguð til að fara í launalaust leyfi eftir að hún neitaði að taka krossinn af sér.

Þetta gerðist degi eftir að hún lauk námskeiði á vegum fyrirtækisins um aukna meðvitund á mismunandi menningarheimum og menningarfyrirbærum.

Heittrúaður fyrrum embættismaður í stjórn Breta Ann Widdecombe segir reglur flugfélagsins "brjálæðislegar" og hvetur kristna til að sniðganga félagið.

Eweida er heimavið þessa dagana eftir að hún fékk bréf frá flugfélaginu þar sem sagði "Þú hefur verið send heim þar sem þú hlýddir ekki skynsamlegri beiðni."

Hún hefur kært félagið fyrir trúarlega mismunun.

Talsmaður British Airways sagði hins vegar að Eweida hafi ekki verið neydd í frí, hún hafi tekið launalaust leyfi af eigin frumkvæði. Hún sagði reglur um einkennisklæðnað skýrar með öll hálsmen, það væri ekki bannað að bera þau, en þau yrðu að vera undir skyrtunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×