Innlent

Annað setuverkfall í næstu viku

Einungis grunnþörfum heimilisfólks var sinnt á átta dvalarheimilum aldraðra í dag vegna setuverkfalls ófaglærðra starfsmanna. Annað setuverkfall hefur verið boðað í næstu viku sem standa á í tvo sólarhringa.

Setuverkfallið hófst á miðnætti og stendur til miðnættis í kvöld en með aðgerðunum er starfsfólk að mótmæla launakjörum sínum. Dvalarheimilin sem um ræðir eru Hrafnista í Reykjavík og Hafnarfirði, Grund, Vífilsstaðir, Víðines, Sunnuhlíð, Skógarbær og Dvalarheimilið Ás í Hveragerði.

Á annað þúsund manns dvelja á þessum heimilum en um það bil 900 starfsmenn taka þátt í aðgerðunum. Að sögn Álfheiðar Bjarnadóttur, talsmanns starfsmanna á Hrafnistu í Reykjavík, aðstoðuðu þeir gamla fólkið ekki við að klæða sig í morgun eins og venjan er, en fylgja þeim þó á salerni og sjá til þess að þau fái að borða. Enginn þvottur hefur verið þveginn á heimilunum í dag, né hafa gólf verið skúruð.

Álfheiður segir heimilisfólkið hafa verið afar jákvætt í garð aðgerðanna og það sýni þeim skilning. Aðspurð hvort einhver viðbrögð hafi borst frá stjórnvöldum segir Álfheiður svo ekki vera. Á fundi starfsmanna í dag var ákveðið að grípa að nýju til setuverkfalls í næstu viku, og þá í tvo sólarhringa, frá og með miðnætti á fimmtudag, ef ekkert hefur þokast í málunum.

Ekki hefur náðst í heilbrigðisráðherra í dag vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×