Innlent

Áfrýja ákvörðun um afnám hámarkstaxta

MYND/vilhelm

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra hefur áfrýjað ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um afnám hámarkstaxta leigubifreiða til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þá hyggst leigubílastöðin Hreyfill sækja um undanþágu til eftirlitsins til að halda áfram að styðjast við samræmda gjaldskrá.

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í febrúar aðgjaldskrá leigubíla skyldi gefin frjáls frá og með 1. maí næstkomandi. Að sögn Guðmundar Sigurðssonar, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins, taldi eftirlitið meðal annars að með reglugerðabreytingu um að höfuðborgarsvæðið og Reykjanes yrði eitt atvinnu- og gjaldsvæði fyrir leigubíla hefði opnast tækifæri á samkeppni í greininni. Þá hafi með breytingum á samkeppnislögum í fyrra verið kveðið skýrara á um hlutverk Samkeppniseftirlitsins sem samkeppnisyfirvalds í stað samkeppnis- og neytendayfirvalds.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er hægt að áfrýja til áfrýjunarnefnda samkeppnismála og það hyggst Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra gera. Hjalti Hafsteinsson, stjórnarmaður í Bifreiðastjórafélaginu Frama, sem á aðild að bandalaginu, segir það gert því frelsi sé vandmeðfarið og hætta á að einhverjir óprúttnir aðilar nýti sér frelsið til að okra á neytendum.

Bæði Samkepppniseftirlitið og Bandlag íslenskra leigubifreiðastjóra hafa kynnt sín sjónarmið fyrir áfrýjunarnefndinni og hann býst við að nefndin skili niðurstöðu á næstu dögum. Verði hún leigubílstjórum í óhag hyggst talsmaður neytenda Gísli Tryggvason, funda með öllum hagsmunaaðilum í málinu.

Gert erráð fyrir því í úrskurði Samkeppniseftirlitsins að leigubílastöðvar geti sótt um undanþágu um samræmda gjaldskrá. Leigubílastöðin Hreyfill hefur þegar ákveðið að sækja um slíka undanþágu og segir Sæmundur Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri Hreyfils, að það sé fyrst og fremst gert með hagsmuni neytenda í huga. Fólk verði að geta gengið að því vísu að taxti leigubílstjóra hjá stöðinni sé sá sami.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×