Innlent

Hryggskekkja æ algengari

Tuttugu og sex prósent 15 ára stúlkna horfa meira en fjóra klukkutíma á dag á sjónvarp og tæp fjörutíu prósent 15 ára drengja eru fjóra tíma eða meira í tölvuleikjum á degi hverjum. Sjúkraþjálfarar segja hryggskekkju hjá unglingum orðna mun algengari vegna langvarandi setu og hreyfingarleysis. Kristján Ragnarsson, formaður sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara, segir börn og unglinga sækja sífellt meira í þjónustu sjúkraþjálfara og hann segist sjá aukninguna um 30-40% frá árinu 1999.  Aukninguna má helst rekja til hreyfingaleysis og ofþyngdar barna og unglinga en 20% af börnum á aldrinum 9-15 ára á Íslandi eru of þung og fer talan jafnt og þétt hækkandi. Kristján segir að haldi áfram sem horfir muni þetta fela í sér mikinn kostnað fyrir samfélagið á komandi árum, meðal annars í fleiri tilfellum af áunninni sykursýki og stoðkerfiskvillum. Þar sem stoðkerfið barna og unglinga er fljótt að aðlagast getur langvarandi seta ollið hryggskekkju hjá þeim og ef litið sé á ungling sem situr fyrir framan tölvuna og þeir sitja oft neðarlega á mjóbakinu og þeir sitja oft skakkir. Hryggskekkjan er afleiðing langvarandi setu í rangri stöðu í marga klukkutíma á dag. Auk hryggskekkjunnar verða sjúkraþjálfarar meðal annars varir við misvægi í vöðvalengd og vöðvastyrk hjá ungu fólki, almennt lélegt líkamsástand, álag á axlargrindarvöðva, höfuðverkjavandamál og fleira. Kristján segir ýmislegt hægt að gera til að koma í veg fyrir þessi tilfelli og vegur þar hreyfing og þjálfun mest.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×