Erlent

Rajapakse var kjörinn forseti

Sigrinum fagnað. Auk þess að gleðjast yfir kosningasigrinum fagnaði Mahinda Rajapakse sextugsafmæli sínu í gær.
Sigrinum fagnað. Auk þess að gleðjast yfir kosningasigrinum fagnaði Mahinda Rajapakse sextugsafmæli sínu í gær.

Mahinda Rajapakse forsætisráðherra bar sigur úr býtum í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu í fyrradag. Aðeins munaði tæpum tveimur prósentum á honum og helsta keppinauti hans.

Kosningarnar gengu prýðilega á suðvestanverðri eynni þar sem kjörsókn var um 75 prósent. Á henni norðvestanverðri, þar sem Tamílar eru þorri íbúa, var annað uppi á teningnum því Tamíltígrarnir svonefndu hvöttu fylgismenn sína til að sniðganga kosningarnar. Í borginni Jaffna neytti innan við eitt prósent kjósenda atkvæðisréttar síns. Leikar fóru þannig að Rajapakse hlaut 50,29 prósent atkvæða og 48,38 prósent kjósenda merktu við Ranil Wickremeshinghe, oddvita stjórnarandstöðunnar, en stuðningsmenn hafa farið fram á að kjörfundur verði endurtekinn norðvestanlands.

Ellefu aðrir frambjóðendur deildu afgangnum með sér. Rajapakse kvaðst í viðtölum við blaðamenn ánægður með sigur­inn og hét því að friðarviðræður við Tamíla yrðu forgangsverkefni sitt. Hann útilokaði þó að þeir fengju að stofna sjálfstætt ríki. Tígrarnir hafa undanfarna áratugi barist fyrir réttindum Tamíla, sem eru hindúar, í landi þar sem Sinhalar, sem aðhyllast búddisma, fara með völd. Borgarastyrjöld geisaði lengi vel en vopnahlé komst svo á árið 2002. Talið er að 65.000 manns hafi látist í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×