Erlent

Kalla eftir endurbótum á SÞ

Ítarleg rannsókn á svonefndri olíu-fyrir-mat-áætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak hefur leitt í ljós að samtökin eru hreinlega ekki fær um að annast svo umfangsmikil verkefni með skilvirkum hætti nema til komi róttækar endurbætur á stjórnsýslu þeirra. Þetta sagði Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem stýrði hinni óháðu rannsókn, er hann kynnti niðurstöður hennar í höfuðstöðvum SÞ í New York á miðvikudag. Í skýrslunni er bent á margvísleg mistök og vanhæfni í öllu stjórnkerfi SÞ, allt frá framkvæmdastjóranum sjálfum Kofi Annan til aðstoðarmanna staðgengils hans í öryggisráðinu. Þeir létu spillingu viðgangast og aðhöfðust ekkert er ríkisstjórn Saddams Husseins í Írak mokaði um 10,2 milljörðum Bandaríkjadala, andvirði um 640 milljarða króna, í sinn vasa, framhjá öllum viðskiptaþvingunum. Annan hvatti til þess að leiðtogar aðildarríkja SÞ, sem koma saman í næstu viku, nýttu það "gullna tækifæri" sem nú gefst til umbóta. Ráðamenn margra þróunarríkja eru hins vegar tortryggnir á slíkt af ótta við að það muni rýra áhrif þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×