Erlent

Kaspíahafsolíu dælt vestur

Forsetar Aserbaídsjans, Georgíu og Tyrklands opnuðu í gær, við hátíðlega athöfn í Sangachal suður af Bakú, fyrir flutning jarðolíu um nýja leiðslu frá olíulindunum við Kaspíahaf til útflutningshafnar á Miðjarðarhafsströnd Tyrklands. Nýju leiðslunni, sem liggur um þessi þrjú lönd, er fagnað sem áfanga að því að gera Vesturlönd minna háð olíu frá Miðausturlöndum. Leiðslan er alls 1.760 kílómetrar að lengd og er þess vænst að um hana verði hægt að dæla allt að einni milljón olíutunna á dag. Til stendur að leiðslan nái lengra inn á olíusvæði Mið-Asíu og því var forseti Kasakstans líka viðstaddur vígsluathöfnina. Bandaríkjamenn hafa stutt verkefnið með ráðum og fjármunum, enda sjá þeir hag sínum og Vesturlanda almennt betur borgið með því að auðvelda flutning þessarar olíu vestur á bóginn, framhjá bæði Íran og Rússlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×