Erlent

Bush gagnrýndur

Öryggi Bandaríkjanna byggist á stríðinu í Írak, sagði Bush Bandaríkjaforseti í gær. Hann vísaði ítrekað til hryðjuverkaárásanna ellefta september þegar hann ræddi stríðsreksturinn. Bush hélt sjónvarpsávarp á besta tíma í gærkvöldi í von um að slá á gagnrýni og byggja upp traust almennings, en kannanir benda til þess að það fari þverrandi. Í ávarpinu ræddi hann ástandið í Írak og tengdi það ítrekað hryðjuverkaárásunum í Bandaríkjunum ellefta september 2001. Hann sagði al-Qaeda og Ósama bin Laden eina meginástæðuna fyrir því að halda yrði áfram harðri baráttu í Írak. Þar hefðu hryðjuverkamenn hreiðrað um sig og lytu stjórn Abu Musabs al-Zarqawis, sem heitið hefur bin Laden hollustu. Gagnrýnendur brugðust ókvæða við tilvísunum til ellefta septembers og bentu á það sem Bush hefur sjálfur viðurkennt: að ekkert samhengi sé á milli hryðjuverkamannanna sem gerðu árásirnar þá og Saddams Hússeins. Könnun CNN og USA Today bendir til þess að almenningur sjái ekki heldur nein tengsl. Helmungur aðspurðra taldi málið óskilt en fjörutíu og sjö prósent voru á því að samhengi væri á milli árásanna og stríðsins í Írak. Bush kynnti engar nýjar hugmyndir um hvernig binda mætti enda á átökin í Írak og bað landa sína að sýna þolinmæði. Hann hafnaði umræðu um dagsetningu heimkvaðningar bandarískra hermanna í Írak og sagði ótímabært að ræða nokkurt slíkt. Hann hafnaði því jafnframt að hermönnum í Írak yrði fjölgað, þar sem yfirmenn heraflans þar teldu það ónauðsynlegt. Tímaritið Economist hafði þó nýlega eftir hershöfðingjum í landinu að helst þyrfti að fjölga í heraflanum. Bush sagði vænlegra að byggja upp írakskar sveitir, en talsmenn Hvíta hússins segja hundrað og sextíu þúsund Íraka hafa lokið þjálfun, en stjórnarandstæðingar vestra segja hið rétta í málinu að einungis tvöþúsund Írakar séu færir um að sinna störfunum sem sinna þarf. Það gæti reynst örðugt að senda fleiri bandaríska hermenn til Íraks þar sem illa gengur að fá nýliða til að ganga í herinn. Í ávarpi sínu hvatti Bush raunar þá sem hefðu áhuga á hermálum til að ganga í herinn hið fyrsta. Hann sagðist einnig vita að margir Bandaríkjamenn spyrðu sig hvort að fórnirnar í Írak væru þess virði, og fullyrti að svo væri. Þær væru nauðsynlegar til að tryggja öryggi Bandaríkjanna. Vinsældir Bush eru þær minnstu sem mælst hafa síðan að hann flutti í Hvíta húsið 2000. Fimmtíu og sex prósent eru ósátt við stjórn hans á öllu tengdu Írak og meirihluti aðspurðra telur nú í fyrsta sinn að Bush hafi vísvitandi afvegleitt þjóðina þegar hann færði rök fyrir innrásinni í Írak á sínum tíma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×