Innlent

Smalað á fund Framsóknar

Bent var á að stærsti hluti nýju félaganna er rétt yfir tvítugu og ætti því samkvæmt öllu að vera félagar í Félagi ungra framsóknarmanna. Núverandi formaður félagsins, Sigrún Jónsdóttir, tilkynnti í vor að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri. Ingólfur Sveinsson, fráfarandi gjaldkeri og stuðningsmaður Björns Inga í borginni, nýtur stuðnings innan stjórnarinnar til að taka við formennsku. Ágreiningur er um aðra stjórnarmenn þar sem Björn Ingi er sagður vilja koma þremur sérstökum stuðningsmönnum sínum inn í sjö manna stjórn. Þeir eru Kristín Guðmundsdóttir, systir Helga S. Guðmundssonar, eins helsta trúnaðarmanns Framsóknarflokksins, Gerður Hauksdóttir, mágkona Guðna Ágústssonar, og Stefán Þór Björnsson, fyrrverandi stjórnarmaður ungra framsóknarmanna í Hafnarfirði. Talið er að smölunin sé aðeins fyrsta skrefið í áformum Björns Inga til að ná völdum innan Framsóknarflokksins til lengri tíma litið, og sé jafnvel gerð til að styrkja stöðu hans fyrir næstu alþingiskosningar, ákveði hann að bjóða sig aftur fram til þings. Því hefur verið haldið fram að með þessu segi Björn Ingi kjörnum fulltrúum félagsins, Jónínu Bjartmarz, Alfreð Þorsteinssyni og Önnu Kristjánsdóttur, stríð á hendur í skjóli formanns flokksins og forsætisráðherra. Björn Ingi sagði í samtali við Fréttablaðið í gær ekkert vilja gefa út um áform sín varðandi borgarstjórnarkosningarnar. Spurður um smölunina í Reykjavíkurfélagið sagði hann: „Ég veit ekkert um það hvort þetta séu sérstakir stuðningsmenn mínir en mér þykir vænt um ef svo er. Hins vegar veit ég að þetta er allt gegnheilt framsóknarfólk og tel mikinn feng að því að þau og fleiri komi til liðs við starfið í aðdraganda tvennra kosninga." Hundrað og átján nýir framsóknarmenn höfðu skráð sig í Framsóknarfélagið Reykjavík suður frá því um síðustu mánaðamót. Aðalfundur verður haldinn í kvöld þar sem kosið verður í nýja stjórn. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru flestir hinna nýju félaga eindregnir stuðningsmenn Björns Inga Hrafnssonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra. Talið er að Björn Ingi stefni að því að bjóða sig fram til fyrsta sætis á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor, gegn sitjandi borgarfulltrúum. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×