Innlent

Almenningur sleginn

Síminn hjá Stígamótum hefur verið rauðglóandi í dag og sem dæmi gáfu ónefnd hjón samtökunum fimmhundruð þúsund krónur í dag. Almenningur er sleginn yfir því kynferðisofbeldi sem sum börn búa við. Allt má þetta rekja til umfjöllunar um bókina Mynd af pabba sem kom út um síðustu helgi. Í bókinni er fjallað á hispurslausan hátt um gróft kynferðisofbeldi sem fimm systur í Hafnarfirðinum þurftu að þola. Umræður um bókina hafa hreyft við þjóðinni og margir hafa haft samband við Stígamót í leit að hjálp eða til að spyrja hvað hægt sé að gera. Hjón sem ekki vildu láta nafn síns getið gáfu Stígamótum í dag fimm hundruð þúsund krónur. Forsvarsmenn Stígamóta vona að þær samfélagsstofnanir sem málið varði taki nú við sér og fari yfir verklagsreglur hjá sér og hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum. Könnun sem Hrefna Ólafsdóttir gerði árið 2002, sýnir að um tuttugu og þrjú prósent stúlkna og átta prósent drengja undir átján ára aldri verða fyrir kynferðisofbeldi. Um tveir þriðju hlutar þeirra verða fyrir grófu ofbeldi. Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari mun á morgun mæta í spjall hjá Stígamótum klukkan eitt og eru allir velkomnir. >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×