Innlent

Breytt neysluhegðan skaðar veltu

Verulegar breytingar hafa orðið á því hvaða augum fólk lítur raftækin sín og hvort það lætur gera við þau ef þau bila. "Við sjáum stórfelldar breytingar, sérstaklega síðasta árið," segir Þórir Georgsson hjá Radíóverkstæðinu Sóni. "Myndiböndin eru nánast að hverfa og myndi ég skjóta á að bara í myndbandstækjum væri svona 80 prósenta samdráttur." Hann segir að fólk hiki ekki orðið við að henda ódýrari raftækjum frekar en fara með þau í viðgerð, en helst sé það fólk á og yfir miðjum aldri sem enn vilji láta gera við. "Þetta virðist í auknu mæli orðin stefnan að henda hlutum og búa til mikla sorphauga." Þórir segir DVD tæki að taka yfir og eins séu nýjar tegundir sjónvarpa að taka við af hefðbundnum "túbutækjum" og þar séu mest áberandi tæki með fljótandi kristal. "Sony er til dæmis að skipta alveg yfir í LCD-tæki." Þórir segir veltu hjá sér hafa dregist töluvert saman milli ára vegna þróunarinnar. "Stafrænar myndavélar hafa reyndar komið svolítið inn sem plástur í staðinn fyrir vídeótækin og svo þetta hefðbundna eins og hljómtæki, magnarar og annað. En geislaspilarar eru náttúrlega líka ódýrir þannig að minna er gert við þá heldur en var. Þannig að það eru miklar breytingar." >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×