Erlent

Blair hótar ESB neitunarvaldi

Fyrst stjórnarskrársáttmálinn og nú fjárlögin? Breski forsætisráðherrann Tony Blair varaði við því í gær að Bretar myndu beita neitunarvaldi gegn næsta fjárlagaramma Evrópusambandsins ef hin ESB-ríkin munu standa fast á þeirri kröfu að Bretar gefi eftir endurgreiðslu sem þeir hafa fengið úr sjóðum ESB frá því að Margaret Thatcher samdi um hana árið 1984. Hótun Blairs setur sambandið í enn meiri vanda eftir að bæði franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu stjórnarskrársáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslum í síðustu viku. Til stendur að leggja endanleg drög að fjárlagaramma ESB á tímabilinu 2007-2013 á leiðtogafundi í næstu viku, Milljarða-endurgreiðslurnar sem Bretar fá með þessum hætti eru þyrnir í augum ráðamanna í meginlandsríkjum ESB. Þeir telja þær vera tímaskekkju og tákn um að Bretar telji sig ekki eiga fulla samleið með meginlandinu. Gerhard Schröder Þýskalandskanslari lýsti vonbrigðum með afstöðu Bretlandsstjórnar. "Allir verða að hreyfa sig," sagði hann og knúði á um að samningum um fjárlagarammann 2007-2013 verði lokið án tafar. Evrópuþingið ályktaði í gær að miða skyldi fjárlög ESB á þessu tímabili við 1,07 prósent af þjóðarframleiðslu aðildarríkjanna. Þessi tala er mitt á milli þeirra 1,14 prósenta sem framkvæmdastjórn ESB leggur til og þess 1 prósents sem þau sex aðildarríki, sem mest greiða í sjóði ESB, hafa lagt til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×