Innlent

Ráðherra fer með rangt mál

Formaður efnahags og viðskiptanefndar segir félagsmálaráðherra hafa farið með rangt mál um lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs á þinginu í mars. Hann segir ráðherrann annaðhvort ekki vita betur, eða að veruleikinn sé allur annar en komið hafi fram í umræðum síðustu daga. Nema ráðherrann hafi vísvitandi sagt þinginu ósatt en það sé mjög alvarlegt mál. Hámarkslán Íbúðalánasjóðs eru tæpar fimmtán milljónir, en Sparisjóðirnir lána allt að tuttugu og fimm milljónir til húsnæðiskaupa og auglýstu í mars slíkar lánveitingar í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Pétur Blöndal er formaður efnahags og viðskiptanefndar var einnig stjórnarformaður SPRON um mánaðartíma í desember síðastliðnum. Hann vildi vita á Alþingi í mars: „Hvernig samningum milli Íbúðálánasjóðs og Sparisjóðanna væri háttað. Hvort aðrar lánastofnanir kæmu að þeim. Hvort það geti verið að Íbúðalánasjóður kaupi lánveitingar á öðrum veðrétti, sem séu umfram hámarkslán sjóðsins og láni þær aftur á fyrsta veðrétti. Hvort hámarkslán sjóðsins séu því í raun komin upp í tuttugu og fimm milljónir." Í svari félagsmálaráðherra segir að samkvæmt nýjum lögum megi sjóðurinn stunda virka fjárstýringu og áhættufjárstýringu. Hann segist ennfremur ekki kannast við dæmi þess sem þingmaðurinn nefndi að Íbúðalánasjóður taki þátt í að lána umfram þau mörk sem honum eru sett með lögum og reglugerð. Pétur Blöndal segir að þetta svar sé mjög undarlegt ef lánasamningar Íbúðalánasjóðs og bankanna séu með þeim hætti sem nú virðist vera. Þá sé ráðherrann að fara með rangt mál. Það kunni að vera að hann hafi ekki vitað betur, eða að lánasamningar bankanna séu eingöngu lán til fyrirtækja en ekki einstaklinga og ef ráðherra fer með rangt mál fyrir þingi þá er það alvarlegur hlutur Sjóðurinn hefur lánað áttatíu milljarða af ríkistryggðu lánsfé til bankanna og sparisjóðanna. Það jafngildir um þriðjungi þeirrar upphæðar sem bankarnir hafa lánað í nýjum húsnæðislánum. Hann segir einnig að staðan væri betri ef verið væri að lána til fyritækja því þá fari lánin ekki í neyslu og séu frekar skuldabréf sem eru keyopt á markaði. Hann telur ÍIbúðalánajsóð vera að fara inn á verksvið viðskiptabankanna. Forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs hafa sagt að sjóðurinn skipti sér ekki af því hvernig bankarnir fari með þessa peninga en í máli félagsmálaráðherra hefur komið fram að lánin séu tryggð í tryggasta veði sem til er, húsnæði landsmanna. Fréttastofa Stöðvar 2 hefur ekki fengið að sjá lánasamninga Íbúðalánasjóðs og bankanna. Pétur Blöndal segir að nýr ríkisbanki samræmist ekki stefnu sjálfstæðismanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×