Innlent

150 skjálftar á Reykjaneshrygg

Mikil jarðskjálftahrina hófst úti á Reykjaneshrygg seint í gærkvöldi og hafa um 150 skjálftar mælst á svæðinu. Skjálftahrinan úti á Reykjaneshrygg á upptök sín um 40 kílómetra suðvestur af Reykjanestá, en hún hófst um miðnætti og stendur enn yfir. Stærsti skjálfti hrinunnar varð rétt fyrir hálffjögur í nótt og mældist hann um 3,6 á Richter. Fjöldi minni skjálfta fylgdi í kjölfarið og stóð hrinan fram undir morgun. Að sögn Matthews J. Roberts á eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands eru engin merki um eldsumbrot á þessum slóðum. Hann segir hrinur sem þessar nokkuð algengar úti á hryggnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×