Erlent

Segja uppreisn hafa breiðst út

Uppreisnin í Úsbekistan hefur nú breiðst út til fleiri borga og fólk er ofsareitt forseta landsins eftir að hundruð manna voru skotnir til bana á föstudag. Það er lítið um áreiðanlegar fréttir frá Úsbeskistan enda hafa fréttamenn verið reknir frá þeim stöðum þar sem eitthvað er að gerast. Þannig hafa ekki fengist staðfestar upplýsingar um hversu margir hafi fallið í árás hersins á föstudag. Nokkur mannréttindasamtök halda því fram að þeir hafi ekki verið færri en 500 og segja að hermenn séu enn að leita að og skjóta uppreisnarmenn í borginni Andijan þar sem blóðbaðið var á föstudag. Samkvæmt fréttum sem þó berast frá Úsbekistan hefur fólk verið að safnast saman til að mótmæla í fleiri borgum og menn bíða nú milli vonar og ótta eftir því hvort Islam Karimov, forseti landsins, sendi herinn gegn því. Íbúar landsins eru ofsareiðir forsetanum og segja að margir þeirra sem voru skotnir í Andijan hafi rétt upp hendurnar til þess að sýna að þeir væru ekki vopnaðir. Hermennirnir hafi engu að síður skotið þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×