Innlent

Nýtt útboðsferli í Héðinsfjarðargöng

Nýtt útboðsferli Héðinsfjarðarganga er hafið og óskuðu sex verktakasamstæður eftir því að fá að bjóða í verkið, þeirra á meðal kínverskt járnbrautafyrirtæki. Stefnt er að því að borun ganganna hefjist næsta sumar.

Héðinsfjarðargöngin hafa þann megintilgang að tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið. Það verður gert með tvennum göngum, annarsvegar 6,9 kílómetra löngum milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar og síðan 3,7 kílómetra löngum milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar.

Verkið var fyrst boðið út fyrir tæpum tveimur árum en ríkisstjórnin frestaði þá framkvæmdum, aðeins einum mánuði eftir að tilboð voru opnuð, og bar við þensluástandi. Sú frestun hefur síðan leitt til málaferla sem enn sér ekki fyrir endann á milli Vegagerðarinnar og lægstbjóðanda, Íslenskra aðalverktaka og sænsks verktaka. Þrátt fyrir málaferlin eru Íslenskir aðalverktakar í hópi þeirra sex verktakasamstæða sem óskuðu þátttöku í nýja útboðinu, en forvalsfrestur rann út í fyrradag, að þessu sinni í samstarfi með svissneskum verktaka, Marti.

Aðrir sem gáfu sig fram voru Metrostav í Tékklandi í samstarfi við Háfell, Ístak og Phil & Sön í Danmörku, Arnarfell, Leonard Nilsen og Héraðsverk og loks kínverski verktakinn China Railways Shisiju Group. Vegagerðin leggur nú mat á fjárhagsstöðu, reynslu og tækjakost þessara aðila áður en hún ákveður hverjir fái að senda inn tilboð, en þau verða opnuð um miðjan marsmánuð. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist síðan um mitt næsta sumar en göngin eiga að vera tilboðin fyrir árslok 2009, eftir fjögur ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×