Innlent

Ummæli iðnaðarráðherra útúrsnúningar

MYND/Valgarður

Orkufyrirtæki hafa fengið loforð fyrir nýtingarleyfi samhliða rannsóknarleyfi vegna jarðhita. Iðnaðarráðherra segir hins vegar að slíkum leyfum sé ekki úthlutað ef nota eigi orkuna til raforkuframleiðslu. Þingmenn Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd segja þetta útúrsnúninga. Ekki sé hægt að skilja á milli raforkuframleiðslu og annarrar nýtingar. Ljóst sé að ef búið sé að úthluta auðlindum á þennan hátt verði þeim ekki úthlutað aftur.

Samkvæmt fimmtu grein í lögum um nýtingu jarðrænna auðlinda frá 1998 getur ráðherra gefið vilyrði um nýtingarleyfi vegna jarðhita ef viðkomandi hefur fengið rannsóknarleyfi. Eldri lögin eiga aðeins við um jarðhita en tilgangur lagafrumvarpsins sem var lagt fram núna fyrir jólin var að breyta lögunum á þann veg að þau tækju einnig til vatnsorku og vatnsaflsvirkjana. Eins og komið hefur fram hefur ráðherra tekið til baka ummæli sín um að samkvæmt frumvarpinu fái þeir sem hafi rannsóknarleyfi vegna vatnsorku, forgang að nýtingarleyfi í tvö ár. Í gær sagði hún ennfremur að forgangur að slíku eyfi væri einungis til staðar varðandi jarðhitann, ef ekki ætti að nota hann til raforkuframleiðslu.

Þetta segja nefndarmenn Samfylkingar í Iðnaðarnefnd að séu útúrsnúningar. Orkufyrirtækjum hafi verið lofað nýtingarleyfi jafnhliða rannsóknarleyfi, samkvæmt gömlu lögunum. Þetta hafi verið staðfest í Iðnaðarráðuneytinu í dag. Ekkert komi í veg fyrir að slík leyfi verði í framtíðinni nýtt til raforkuframleiðslu jafnhliða annarri orkuvinnslu. Þegar orkufyrirtækin hafi á annað borð fengið auðlindirnar í sínar hendur, sé ekki hægt að úthluta þeim aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×