Innlent

Kaupandi 100 milljóna húseignar hyggst rífa og byggja nýtt hús á lóðinni

Kaupandi stórs einbýlishúss á Seltjarnarnesi áformar að rífa húsið og byggja nýtt á lóðinni í staðinn. Samkvæmt heimildum NFS greiddi hann um hundrað milljónir króna fyrir húsið.

Húsið var auglýst til sölu fyrir þremur vikum, en að sögn seljandans seldist það fáeinum dögum síðar. Húsið er tæpir 330 fermetrar, auk rúmlega 40 fermetra tvöfalds bílskúrs og 20 fermetra upphitaðrar útigeymslu. Það er um 30 ára gamalt og stendur á sjávarlóð. Börkur Thoroddsen tannlæknir seljandi hússins segist bundinn trúnaði við umboðsmann kaupandans um hver kaupandinn sé sem og um verð hússins.

Kaupsamningi vegna sölunnar hefur ekki verið þinglýst samkvæmt uppýsingum frá sýslumanni.Börkur segist hafa upplýsingar um að til standi að rífa húsið og byggja nýtt hús á lóðinni. Börkur Thoroddsen segir sig og konu sína hafa hannað húsið á sínum tíma ásamt arkitekti og búið í því frá byggingu. Hann segist ekki hafa vitað af því þegar húsið var selt að áform væru uppi um að rífa það. Börkur segir húsið í góðu ástandi, það þurfi að lagfæra steypu og mála, en samkvæmt áliti sem hann hafi fengið frá sérfræðingi fyrir ári, megi ætla að þær framkvæmdir kosti á bilinu 3-4 milljónir króna.

Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að um hundrað milljónir króna hefðu verið greiddar fyrir húsið. NFS hefur heimildir fyrir því að kaupandinn sé Jón Halldórsson hæstaréttlögmaður, en hann sagði í samtali við fréttastofuna að nafn hans væri ekki á kaupsamningnum, en neitaði að upplýsa á nafni hvers húsið væri. Aðspurður um hvers vegna stæði til að rífa húsið sagði hann að ekki væri víst að ákvörðun um það lægi fyrir. Nágranni Sæbrautar 13 sagðist í samtali við fréttastofuna hafa heyrt af þessum áformum og lýsti hryggð yfir þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×