Innlent

Íslendingar taka að sér stjórn flugvallarins í Kabúl

Ríkisstjórnin hefur fallist á beiðni Atlantshafsbandalagsins um að taka að sér stjórn flugvallarins í Kabúl í Afganistan. Íslendingar munu gegna víðtæku ráðgjafarhlutverki við uppbyggingu flugvallarins og víðtækara hlutverki en þeir hafa áður gegnt.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun Geir Haarde utanríkisráðherra tilkynna á fundi utanríkisráðherra NATO ríkjanna í Brussel á morgun, að Íslendingar samþykki beiðni bandalagsins um þetta. Flugmálastjórn Íslands, sem heyrir undir samgönguráðuneytið, munu sjá um framkvæmd samkomulagsins, sem er á milli íslenskra stjórnvalda og NATO. Síðast liðið vor gerðu starfsmenn Flugmálastjórnar úttekt á flugvellinum að beiðni bandalagsins. Verkefnið er að stjórna breytingum á flugvellinum úr því að vera hernaðarflugvöllur yfir í að vera borgaralegur flugvöllur í höndum heimamanna.

Þetta er annað stóra alþjóðlega verkefnið sem Flugmálstjórn tekur að sér fyrir íslenska ríkið. Í Pristina sjá Íslendingar um ráðgjafahlutverk fyrir Sameinuðu þjóðirnar, en margt bendir til að verkefnið nú verði stærra, því auk ráðgjafarhlutverks munu Íslendingar einnig sjá um stjórn flugvallarins í Kabúl.

Í apríl 2004 tóku Íslendingar að sér margs konar ráðgjafarstörf á flugvellinum í Pristína í Kosovo fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Það verkefni felur meðal annars í sér menntun flugumferðarstjóra, skipulag slökkviliðs, ráðgjöf um uppbyggingu flugbrautar, útgáfu handbóka og fleira sem tengist því að reka flugvölll samkvæmt reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO.

Samningur vegna verkefnisins í Kosovo hefur verið framlengdur út næsta ár, en hann hefði annars runnið út um áramótin. Sá samningur kostar hátt á annan milljarð króna, samkvæmt heimildum fréttastofu. Nær öruggt má telja að samningurinn sem Íslendingar taka formlega að sér með yfirlýsingu utanríkisráðherra á morgum um Kabúlflugvöll kosti töluvert meira. Samningurinn um Kapúlflugvöll er enda víðtækari, því Íslendingar munu líka taka að sér stjórnun á Kabúlflugvelli, í ríkari mæli en þeir hafa gert í Kosovo. Í Kosovo sjá Sameinuðu Þjóðirnar um stjórnun flugvallarins og uppbyggingarverkefnisins þar. Stöðugildi Íslendinga í Pristína hafa verið á bilinu tíu til fimmtán, en verða líklega fleiri á flugvellinum í Kabúl, þar sem verkefnið er sem fyrr segir stærra í sniðum. Þá eru níu Kósóvar búnir að vera hér á landi frá því í vor að læra flugumferðarstjórn. Búast má við að Afganir muni koma hingað í fyllingu tímans í sömu erindagjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×