Innlent

Rottugangur við leikskóla á Seltjarnarnesi

Rottugangur er við leikskólann Mánabrekku á Seltjarnarnesi og vinna meindýraeyðar og starfsmenn bæjarins að úrbótum. Rotturnar virðast hafa sótt í sandkassa við leikskólann sem nú hafa verið fjarlægðir.

Fyrst varð vart við rotturnar á föstudag og var meindýraeyðir strax kallaður út. Eitrað var á svæðinu og gildrur lagðar. Tvær rottur náðust í gildrurnar og rottuungar fundust. Börnin á leikskólanum hafa ekki farið í garðinn nýlega en hann er lokaður með hliði frá aðalgarðinum þar sem leiktækin eru.

Hrafnhildur Sigurðardóttir, leikskólafulltrúi Seltjarnarnesbæjar, segir þetta ekki virðast duga því enn séu rottur á sveimi. Aðspurð hvort einhverjar rottur hafi náðst um helgina segir Hrafnhildur tvær hafa verið í gildrunum frá því á föstudaginn.

Ekki er vitað hversu margar rottur hafa verið í norðurgarðinum við leikskólann en framkvæmdir eru hafnar við að fjarlægja pall sem þar er og hafa safnkassar með lífrænum úrgangi verið fjarlægðir.

Guðmundur Björnsson hjá meindýravörnum Reykjavíkur segir þetta mjög erfitt, þar sem rotturnar haldi til neðanjarðar - ofan í holum eða þar sem lagnir eru bilaðar. Og hann segir að fólk ætti að hugsa sig tvisvar um áður en það setur svona sandkassa út í garð því lyktin af þeim dragi bæði að mýs og rottur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×