Innlent

Utanríkisráðherra segir yfirlýsingu Condoleezzu Rice svara spurningum íslenskra stjórnvalda um ólögmæta fangaflutninga

Mynd/Atli Már

Í yfirlýsingu sem Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi frá sér í dag segir hún leyfilegt samkvæmt alþjóðalögum að flytja fanga milli landa sem ekki hefur verið réttað yfir. Condoleezza sagði jafnframt að bandarísk stjórnvöld gangi úr skugga um að hvers lags yfirheyrsluaðferðir sé við lýði í þeim löndum sem taka á móti föngunum. Bandarísk yfirvöld líði ekki að fangar séu pyntaðir.

Mannréttindasamtökin Amnesty International sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að sex flugvélar á vegum CIA hafa flogið um 800 ferðir um evrópska fluglofthelgi. Þar af hafi um 50 ferðir verið um Shannon flugvöll á Írlandi. Þessar upplýsingar stangist á við upplýsingar frá Condoleezzu Rice sem í síðustu viku sagði að Shannon flugvöllur hefði ekki verið notaður fyrir meinta fangaflutninga á vegum CIA. Geir H. Haarde utanríkisráðherra fundaði í dag með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þar ræddu þeir meðal annars meinta ólöglega fangaflutninga um íslenska lofthelgi. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í dag segir að utanríkisráðherra telji umrædda yfirlýsingu Condolezzu Rice svara spurningum íslenskra stjórnvalda um ólögmæta fangaflutninga.

 

Amnesty International hefur skrásett flugferðir sex CIA flugvéla frá september árið 2001 til september 2005. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn Bandaríkjanna hafa umræddar flugvélar lennt fimmtíu sinnum á Shannon flugvelli og flogið þaðan 35 sinnum sem gefur til kynna að einhverjum flugferðum sé enn haldið leyndum. Algengt er að herflugvélar frá bandaríska hernum taki eldsneyti á flugvellinum en engin þeirra sex flugvéla sem um ræðir eru herflugvélar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×