Innlent

76 þúsund rjúpur skotnar samkvæmt Skotvís

Sjötíu og sex þúsund rjúpur voru veiddar á veiðitímabilinu í haust samkvæmt könnun Skotveiðifélags Íslands. Einn þátttakenda í könnuninni veiddi 62 rjúpur en meðalfjöldi rjúpna á veiðimann var rúmlega tíu.

Um 5000 þúsund voru skráðir í Skotveiðifélag Íslands og við gerð könnunarinnnar var hringt í um tíu prósent félagsmanna. 90 prósent aðspurðra svöruðu könnuninni og kom í ljós að 67 prósent félagsmanna fóru á veiðar þetta árið. Fjöldi veiðidaga á hvern veiðimann var að meðaltali fjórir. Sá sem oftast fór var við veiðar ellefu daga.

Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, segir menn hafa haldið að veiðin yrði allt að 120 þúsund fuglar þar sem mörgum þótti veiðitíminn langur en könnun Skotvís gefi til kynna að það markmið sem félagið hafi sett sér hafi náðst.

Aðspurður hvort hann treysti því að upplýsingarnar séu nokkuð nálægt raunveruleikanum játar Sigmar því og bendir á að Skotvís sé að spyrja eigin félagsmenn og hann hafi það á tilfinningunni að menn segi satt og rétt frá. Þá bendi rafræn skráning hjá veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar til svipaðra niðurstaðna.

Einn veiðimannanna sem tók þátt í könnuninni veiddi 62 rjúpur og sá sem veiddi mest á einum degi skaut 48 fugla. Sigmar segir veiðimenn sem þessa vera í minnihluta í félaginu. Hann segir aðspurður að svo virðist sem ekki séu magnveiðimenn í röðum Skotvís, þeim sé frekar í nöp við félagið.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra er ánægð með niðurstöðuna en segir ekki hægt að ákveða með framhaldið fyrr en eftir talningu næstu sumar. Hún segir tölurnar í samræmi við það sem stefnt var að þegar veiðar hafi verið leyfðar, þ.e. að þær yrðu sjálfbærar og þeim yrði stillt í hóf. Því hafi sölubannið verið sett á og veiðitími styttur og tilmælum beint til veiðimanna um hófsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×