Innlent

Ferðakostnaður hækkar

Risnukostnaður forsætisráðuneytisins jókst um rúm áttatíu prósent í fyrra, mest allra ráðuneyta. Ferðakostnaður allra ráðuneytanna jókst samanlagt um tuttugu og níu milljónir króna á síðasta ári. Heimastjórnarafmæli og ráðherrafundur Norðurlandanna er ástæðan að sögn upplýsingafulltrúa.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns. Fram kemur í svari ráðherrans að ferðakostnaður, það er risna akstur og ferðir, hafi aukist um 29 milljónir á árinu 2004. Þau ráðuneyti sem hækkuðu mest á árinu 2004 voru forsætis- og utanríkisráðuneyti. Þannig jókst kostnaður forsætisráðuneytis um tæp 40% en utanríkisráðuneytisins um rúm 17%. Heiðurinn að mestu útgjaldalækkuninni í málaflokknum á síðasta ári á því Iðnaðar- og Viðskiptaráðuneytið en þar drógust útgjöld saman um 23%.

Mest var þó útgjaldaaukningin í risnukostnaði ráðuneytanna eða rúm 10% á milli ára, hækkar úr rúmum 290 milljónum í tæpar 330 milljónir, eða fjörutíu milljónir á einu ári. Mestu munar þar um mikla aukningu í risnukostnaði forsætisráðuneytis sem óx um rúm 80% á milli ára, fór úr 12 milljónum í 23. Hlutur forsætisráðuneytisins í auknum útgjöldum ráðuneyta vegna risnu er þannig næstum þriðjungur.Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu má skýra þessu miklu hækkun með því að fjórir stórir og dýrir atburðir á vegum ráðuneytis hafi sett strik í reikninginn. Þar á meðal eru veisluhöld vegna heimastjórnarafmælis, 60 ára lýðveldisafmæli, ráðherrafundar Norðurlandanna og ráðstefnum sem skrifist á risnureikning forsætisráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×