Erlent

Afgreiðslutími kráa gefinn frjáls í Bretlandi í næstu viku

MYND/Teitur

Ný lög um frjálsan afgreiðslutíma kráa í Bretlandi taka gildi í næstu viku eftir tilraun íhaldsmanna til að seinka gildistíma laganna var hrundið á breska þinginu í gær. Andstæðingar laganna óttast hið versta en stuðningsmenn þess segja það bæta drykkjumenningu Breta.

Nýju lögin um afgreiðlsutíma kráa hafa verið mikið rædd í Bretlandi og má segja að þau hafi klofið þjóðina, en hingað til hafa krár aðeins mátt vera opnar til klukkan ellefu. Stuðningsmenn laganna telja að með því að leyfa kráareigendum að ákveða sjálfir hversu lengið er opið séu meiri líkur á að Bretar taki upp drykkjusiði nágranna sinna á meginlandi Evrópu og stilli drykkjunni í hóf. Þá benda þeir á að með þessu megi koma í veg fyrir að allir streymi út af börum á sama tíma með tilheyrandi látum og ofbeldi, en þetta eru svipuð rök og notuð voru hér á landi þegar afgreiðslutímin kráa og skemmtistaða var gefinn frjáls í borginni. Andstæðingar laganna segja hins vegar að lögin muni auk enn frekar andfélagslega hegðun borgaranna og benda á hegðun breskra ungmenna í sólarlöndum máli sínu til stuðnings. Þeir segja að það sé ekki í þjóðareðli Breta að skreppa út á bar og fá sér einn drykk og lengri afgreiðslutími muni bara gera lögreglu erfiðara fyrir í starfi sínu. Athygli vekur að aðeins 700 af um 190 þúsund kráareigendum hafa sótt um það að hafa opið allan sólarhringinn en hins vegar hafa þrír af hverjum fjórum sótt um að lengja afgreiðslutímann um eina til þrjár klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×